Erlent

Tvö hundruð manns farast í flugslysi í Brasilíu

Björgunarsveitir leituðu í dag í rústum farþegaflugvélar sem hlekktist á við lendingu í Sao Paulo í gærkvöldi. Allt að tvö hundruð manns fórust í slysinu.

Flugvélin, sem var af gerðinni Airbus 320, hlekktist á í lendingu á flugvellinum í Sao Paulo, rann fram af enda brautarinnar, yfir hraðbraut þar fyrir neðan og beint á bensínstöð og byggingu í eigu flugfélagsins. Eldtungur gleyptu vélina nær samstundis. Talið er að enginn farþegi hafi lifað slysið af þar sem hitastig í eldhafinu fór yfir eitt þúsund gráður. Sjónarvottur sögðu að svo virtist sem flugstjóri vélarinnar hafi reynt að taka á loft að nýju eftir að vélin náði ekki að hemla vegna bleytu.

Flugmenn hafa gagnrýnt flugvallaryfirvöld í Sao Paulo þar sem þeir vilja meina að brautin, sem vélin rann útaf í gærkvöldi, sé einfaldlega of stutt, sérstaklega þegar rignir þar sem þá þurfa stærri flugvélar lengri hemlunarvegalengd. Tvær flugvélar runnu til að mynda af brautinni í rigningu daginn áður en engin slys urðu á fólki í þeim atvikum. Fyrr á árinu bönnuðu yfirvöld í stuttan tíma stórum farþegavélum að fara í loftið og lenda á brautinni sem um ræðir en flugvöllurinn í Sao Paulo er sá fjölfarnasti í Brasilíu. Áfrýjunardómstóll sneri ákvörðuninni síðan við þar sem efnahagslegar afleiðingar hennar voru taldar of veigamiklar. Þá þótti ekki sýnt að áhættan væri nógu mikil til þess að banna umferð stóru vélanna.

Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg og hefur þegar fyrirskipað rannsókn á slysinu. Líklegt þykir að slysið verði til þess að aukin þrýstingur verði á da Silva að gera eitthvað í flugmálum í landinu en þau hafa verið í miklum ólestri. Gagnrýnendur hans hafa sakað hann um hægagang í þeim málaflokki. Talsmaður forsetans sagði að flugvellinum yrði jafnvel lokað.

Dagblöð í Brasilíu hafa farið mikinn í umfjöllun sinni um slysið. Á síðasta ári varð flugslys þar sem 154 létu lífið. Margir kenndu flugumferðarstjórum um slysið og í framhaldi af því fóru þeir í verkfall. Þeir kröfðust betri vinnutíma og betri launa fyrir vinnu sína. Verkföllin komu harkalega niður á flugi í Brasilíu og röskuðu því verulega. Þá er í gangi rannsókn á því hvort að yfirmenn flugvalla í Brasilíu hafi þegið mútur frá verktökum sem þá byggðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×