Erlent

Þjálfa hermenn til að greina áfallastreitu

Talið að 30 prósent bandarískra hermanna hafi upplifað áfallastreitu.
Talið að 30 prósent bandarískra hermanna hafi upplifað áfallastreitu. MYND/AFP

Bandaríski herinn hefur ákveðið að þjálfa alla hermenn til að greina áfallastreitu hjá sjálfum sér svo þeir geti leitað sér aðstoðar. Talið er að um 30 prósent bandarískra hermanna í Írak hafi upplifað áfallastreitu á einhverjum tímapunkti. Herinn hefur þó takmarkaða getu til að hjálpa þessum hermönnum eins og sakir standa.

Frá árinu 2001 hefur bandaríski herinn sent um 1,5 milljón hermanna til Íraks og Afganistan. Langvarandi vera hermanna í stríðshrjáðum löndum hefur kallað á aukna sálfræðiaðstoð meðal annars vegna áfallastreitu. Skortur á fjármunum hefur hins vegar valdið því að geta hersins til að hjálpa andlega veikum hermönnum er afar takmörkuð.

Herinn hefur því ákveðið að þjálfa alla hermenn til að greina áfallastreitu hjá sjálfum sér og öðrum. Vill herinn með þessu reyna bregðast sem fyrst við áfallastreitu hjá hermönnum.

Sérfræðingar hersins í áfallastreitu reikna með mikilli fjölgun hermanna sem leita sér aðstoðar. Telja þeir nauðsynlegt að herinn ráði að minnsta kosti 270 fleiri sálfræðinga í vinnu til að hægt verði að sinna öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×