Erlent

Ný bók um Baug: Framgangur Baugs vandræðamál fyrir Ísland

Bókin kemur út í lok október.
Bókin kemur út í lok október. Mynd tekin af Amazon í Bretlandi.

Íslensk stjórnvöld töldu framgang Baugs á alþjóðavettvangi vandræðamál fyrir Ísland. Þetta segja höfundar bókar um Jón Ásgeir Jóhannesson og Baug, sem kemur út í Bretlandi í haust. Í bókinni, sem heitir, Sex, Lies and Supermarkets, er fjallað um Jón Ásgeir Jóhannesson og Baug. Höfundarnir, Jonathan Edwards og Ian Griffiths, segja að fjárhagsleg velgengni Baugs hafi orðið tilefni þess að íslensk yfirvöld hófu aðgerðir gegn fyrirtækinu.

Undirtitill bókarinnar er The secret life of Jon Asgeir Johannesson, the multi- millionaire who´s buying Britain -- eða Leyndardómsfult líf Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, margmilljónerans sem er að kaupa Bretland.

Bókin er komin í forsölu á breskum vef Amazon bókaverslunarinnar á Netinu. Útgáfudagur er sagður 31. október 2007.

Bókin virðist skrifuð í æsifréttastíl. Í umsögn um hana á vefsíðu Amazon er bókin sögð greina frá upphafsárum og vexti Baugs á Bretlandsmarkaði. Málaferlum gegn fyrirtækinu er lýst og höfundar rekja galla sem þeir telja að hafi verið á lögreglurannsókninni og hvernig málinu hafi lyktað með því að forsvarsmenn hafi verið hreinsaðir af kærumálum. Þá er fjallað um meint tengsl málsins við íslenska stjórnmálamenn.

Í bókinni er sagt að Jón Ásgeir Jóhannesson, sé að kaupa upp Bretland. Honum sé líst sem margmilljónamæring sem veki oft furðu og hneykslun. Hann þyki vera mikill glaumgosi og hafi sætt ásökunum um svik. Smásölufyrirtæki hans, Baugur, sé orðið frægt í Bretlandi fyrir að yfirtaka þekktar verslanakeðjur eins og Oasis, Iceland og Hamleys.

Samkvæmt upplýsingum frá Baugi er bókin ekki gerð í samvinnu við Jón Ásgeir. Hann viti lítið um bókina annað en að verið sé að skrifa hana. Ekki náðist í höfunda bókarinnar eða útgefanda þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×