Erlent

Þriggja ára dreng rænt í Nígeríu

Nígerískir mannræningjar hafa krafist tíu milljóna Naíra, eða tæpra fimm milljón króna lausnargjalds fyrir þriggja ára dreng sem þeir rændu á leið í skóla í borginni Port Harcourt við ósa Níger-árinnar. Ættingjar barnsins greindu frá þessu í dag. Einungis eru fjórir dagar síðan mannræningjar á svipuðum slóðum slepptu þriggja ára breskri stúlku sem þeir höfðu haldið frá því fimmta júlí.

Drengurinn er sonur höfðingja í Irebe, úthverfi Port Harcourt. Hann var á leið í skóla með einkabílstjóra fjölskyldunnar þegar mannræningjarnir keyrðu í veg fyrir þá og hrifsuðu drenginn.

Mannrán eru tíð við ósa Níger, en hingað til hefur ekki verið mikið um að börnum hafi verið rænt. Breyting virðist hafa orðið þar á, því þremur börnum var rænt í síðasta mánuði.

Að minnsta kosti ellefu erlendir gíslar eru í haldi vopnaðra hópa á svæðinu. Frá ársbyrjun 2006 hefur um tvöhundruð útlendingum verið rænt, en flestum sleppt gegn lausnargjaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×