Lögregla hefur fundið internetsamræður á heimasíðu, sem haldið er úti af múslímskum net-hryðjuverkamönnum, þar sem fram kemur að 45 múslímskir læknar hafi ætlað sér að ráðast á Bandaríkin með bílsprengjum og eldflaugum. Þetta kemur fram í vefútgáfu The Telegraph.
Slóð inn á síðuna fannst á heimili Younis Tsouli í Suð-austur Englandi. Tsouli hefur ásamt tveimur öðrum mönnum verið sakfelldur fyrir að hvetja múslímska hryðjuverkamenn til morða á internetinu. Í samræðunum sem fundust segir meðal annars: "Við erum 45 læknar sem erum ákveðnir í að koma á jihad og taka slaginn innan Bandaríkjanna."
Ekki hafa fundist nein tengsl á milli samtalanna og þeirra lækna sem í haldi eru vegna sprengjutilræðanna í London og Glasgow. Samtölin eru allt að þriggja ára gömul en benda til þess að þá hafi læknar einnig ætlað sér að fremja hryðjuverk. Lögreglan í Bretlandi mun beina hluta rannsóknar sinnar að því hvort al-Kaída samtökin hafi fengið lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk í lið með sér. Mögulega þar sem ekki er líklegt að það dragi að sér neikvæða athygli og er frjálst ferða sinna í vestænum löndum.