Mijailo Mijailovic, morðingi Önnu Lindh, fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur kært lækni og hjúkrunarkonu í Kumla-fangelsinu í Svíþjóð fyrir að taka ekki mark á kvörtunum sínum. Hann fékk blóðtappa í lungun í byrjun ársins.
Mijailovic hafði lengi kennt meins og fann fyrir miklum svima. Honum var sagt að skýringin væri þungt loft í fangaklefanum. Þegar Mijailovic fékk loks að gangast undir hjartalínurit í janúar síðastliðnum kom í ljós að eitthvað var að og var hann færður á nærliggjandi sjúkrahús. Þar var staðfest að hann væri með blóðtappa í lungunum.
Mijalovic segir í kærunni að læknirinn og hjúkrunarkonan hafi beðið allt of lengi með að senda hann á sjúkrahús. Hann byrjaði að kenna meins í nóvember 2006. Hann segir ljóst að hann væri ekki á lífi í dag ef hann hefði ekki ítrekað beðið um að fá að gangast undir hjartalínurit.