Íslenski boltinn

FH með fjögurra stiga forskot á toppnum

Matthías Guðmundsson fagnar hér fjórða marki sínu í fjórum leikjum í sumar
Matthías Guðmundsson fagnar hér fjórða marki sínu í fjórum leikjum í sumar Mynd/Vilhelm

FH-ingar náðu í kvöld fjögurra stiga forystu á toppi Landsbankadeildar karla í knattspyrnu þegar þeir lögðu Framara 2-0 á Laugardalsvelli í lokaleik fjórðu umferðarinnar. Framarar áttu ágætan leik í kvöld en það var frammistaða Hafnfirðinga fyrir framan markið sem réði úrslitum.

Matthías Guðmundsson kom FH-ingunum á bragðið með marki á 51. mínútu eftir sendingu frá Arnari Gunnlaugssyni og í uppbótartíma innsiglaði Tryggvi Guðmundsson sigur FH með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Reyni Leósson fyrir brot á varamanninum Atla Guðnasyni. Tryggvi og Matthías eru markahæstu menn deildarinnar eftir fjórar umferðir og hafa báðir skorað 4 mörk. Matthías hefur skorað í öllum fjórum leikjunum til þessa.

FH-ingar hafa því hlotið 12 stig og hafa fjögurra stiga forskot á Valsmenn sem eru í öðru sæti deildarinnar. Nú verður stutt hlé gert á deildarkeppninni, sem hefst aftur eftir landsleikjatörnina - þann 7. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×