Erlent

Crocker hljóp Reykjavíkurmaraþon

Ryan Crocker kemur til fundar við Íranskan kollega sinn fyrr í dag.
Ryan Crocker kemur til fundar við Íranskan kollega sinn fyrr í dag. MYND/AP

Sendiherra Bandaríkjamanna í Írak, sem er í sviðsljósinu þessa dagana vegna fundar hans við kollega sinn í Íran, telst til Íslandsvina. Ryan Crocker hljóp nefnilega Reykjavíkurmaraþon fyrir 23 árum síðan.

Í fréttaskýringu í Bandaríska blaðinu Philadelphia Inquirer er ljósi varpað á feril þessa manns, sem sagður er vera reyndasti erindreki Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum. Hann tók við sendiherrastöðunni í Írak fyrir tveimur mánuðum síðan en á 36 ára ferli sínum í utanríkisþjónustunni hefur hann komið víða við.

Hann hjálpaði til við að koma bráðabirgðastjórn í Írak á laggirnar þegar Saddam Hussein var hrakinn frá völdum og hann opnaði á ný sendiráð Bandaríkjanna í Kabúl eftir að Talibanar misstu völdin í landinu, svo dæmi sé tekið.

Crocker þykir afar agaður maður sem helli sér út í verkefnin af fullum krafti og miklar sögur fara af honum innan utanríkisþjónustunnar. Ein sagan, sem þykir sýna hver fljótur hann sé að bregðast við aðstæðum sem upp koma, er á þessa leið: Fyrir 23 árum síðan á Crocker að hafa verið á leið yfir Atlantshafið, líklega í flugvél frá Icelandair, því að í blaðinu sem dreift var í vélinni var frétt þess efnis að Reykjavíkurmaraþon færi fram daginn eftir. Crocker beið ekki boðanna heldur stökk út vélinni þegar hún millilenti í Keflavík, breytti flugmiðanum sínum, hljóp maraþonið og tók næstu vél áfram til Evrópu.

Tíminn mun hafa verið þrír klukkutímar, 18 mínútur og 25 sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×