Erlent

Dæmd fyrir morðið á eðalbornum eiginmanni sínum

Eiginkonan fláráða fyrir rétti.
Eiginkonan fláráða fyrir rétti. MYND/AFP

Ekkja jarlsins af Shaftesbury var í dag dæmd í 25 ára fangelsi fyrir að myrða hann. Líkið af jarlinum fannst í gljúfri í Ölpunum árið 2005. Eiginkonan, Jamila M'Barek var fundin sek um að leggja á ráðin um morðið en hún fékk bróður sinn til að drýgja ódæðið. Bróðirinn, Mohammad, fékk sama dóm. Saksóknari sagði hana hafa komið eiginmanninum fyrir kattarnef í því augnamiði að komast yfir auðæfi hans.

Morðið á jarlinum, Anthony Ashley-Cooper, vakti mikla athygli á sínum tíma en hinn 66 ára gamli aðalsmaður var þekktur glaumgosi. Hann hvarf af hótelherbergi sínu á frönsku rívíerunni í nóvember árið 2004 en líkið fannst ekki fyrr en fimm mánuðum síðar.

Bróðir eiginkonunnar játaði að hafa orðið honum að bana en sagðist hafa kyrkt hann „óviljandi". Á heimasíðu BBC er haft eftir eiginkonunni í réttarsalnum í Frakklandi að hún hafi ekki gifst jarlinum til fjár. Hún hafi í raun elskað hann en að bölvun hafi verið á ráðahagnum allt frá byrjun.

Sonur jarlsins og núverandi jarl af Shaftesbury sagði fyrir rétti að hann hefði aldrei trúað því að Jamila hafi elskað föður hans og sagði hana illgjarna manneskju.

Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að systkynin væru sek, en lögmenn þeirra hafa áfrýjað dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×