Fótbolti

Houllier að hætta með Lyon

MYND/Reuters

Gerard Houllier hyggst hætta sem knattspyrnustjóri franska liðsins Lyon. Frá þessu er greint í erlendum miðlum og sagt að hann hafi þegar greint leikmönnum liðsins frá þessu. Boðað hefur verið til blaðamannafunda í kvöld vegna málsins.

Samband Houlliers og Jean-Michel Aulas, forseta félagsins, hefur löngum þótt stirt þrátt fyrir að liðið hafi nú tvö ár í röð unnið franska meistaratitilinn undir stjórn Houlliers, en alls hefur liðið unnið titilinn sex ár í röð. Hermt er að Aulas sé ekki ánægður með frammistöðu liðsins í Evrópukeppninni í ár en þar féll liðið út í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Ekki liggur fyrir hvort Houllier heldur áfram þjálfun en hann þjálfaði Liverpool til ársins 2004 áður en hann gekk til liðs við Lyon. Didier Deschamps, stjóri Juventus á Ítalíu, og Claude Puel, þjálfari Lille, eru nefndir sem hugsanlegir eftirmenn Houlliers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×