Innlent

Kærur á hendur Guðmundi Jónssyni í Byrginu sendar aftur til sýslumanns

MYND/RR

Ríkissaksóknari hefur sent Sýslumanninum á Selfossi til baka kærur á hendur Guðmundi Jónssyni, fyrrverandi forstöðumanni Byrgisins. Óskar ríkissaksóknari þess að sýslumaður rannsaki málið frekar.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara var bréf þessa efnis sent sýslumanni í dag en í því er óskað eftir frekari gögnum um málið. Átta konur lögðu inn kæru á hendur Guðmundi Jónssyni í Byrginu fyrir meinta misbeitingu. Sýslumaðurinn á Selfossi hóf rannsókn málsins í desember á síðasta ári og lauk henni í byrjun aprílmánaðar. Í kjölfarið var málið svo sent til ríkissaksóknara sem ákveður hvort gefa eigi út ákæru í málinu.

Að sögn Sigríðar Friðjónsdóttur, saksóknara hjá embætti ríkissaksóknara, er það ekki einsdæmi að máli sé vísað til baka á þeim forsendum að frekari upplýsinga sé þörf. Hún segir ennfremur að þó um átta kærur sé að ræða sé farið með hverja þeirra sem einstakt mál. Þá segir hún mismikið af gögnum vanti við hverja kæru. Í sumum tilfellum sé aðeins um smáræði að ræða í öðrum eitthvað meira.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×