Erlent

Styttist í stóru stundina í Meistaradeildinni

AC Milan og Liverpool mætast í kvöld í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í annað sinn á tveimur árum. Arnar Björnsson íþróttafréttamaður lýsir leiknum beint frá Aþenu klukkan 18:45 í kvöld en upphitun fyrir leikinn hefst á Sýn klukkan 18:00.

Það ríkir mikil eftirvænting hjá stuðningsmönnum liðanna enda er leikurinn í kvöld enginn venjulegur fótboltaleikur. Tvö stórveldi í evrópskri knattspyrnu mætast, AC Milan spilar til úrslita í ellefta sinn en Liverpool það sjöunda. AC Milan hefur sex sinnum orðið Evrópumeistari en takist Liverpool-mönnum að vinna í kvöld jafna þeir þann árangur.

Mönnum er enn fersku minni dramatískur leikur liðanna fyrir tveimur árum þegar Liverpool-menn gengu til búningsherbergja í leikhléi 3-0 undir, skoruðu svo þrjú mörk á sex mínútna kafla í síðari hálfleik og tryggðu sér svo sigurinn í vítaspyrnukeppni. Þegar leikmenn AC Milan rifja þennan leik upp gnísta þeir tönnum. Þeir ætla sér að koma fram hefndum.

AC Milan liðið er gríðarlega vel mannað með Brasilíumanninn Kaka í aðahlutverki. Ætli Liverpool-menn sér sigur verða þeir að koma í veg fyrir að Kaka, sem líklega er besti knattspyrnumaður heims, endurtaki snilldartilfþrif sín frá undanúrslitaleikjunum við Manchester United. Í röðum Milan eru einnig Gattuso go Pirlo. Nái þeir undirtökunum á miðjunni þurfa Liverpool-menn að vara sig.

Liverpool hefur á að skipa afbragðssnjöllum knattspyrnustjóra sem hingað til í hefur átt svör við öllum klókindum mótherjanna. Rafa Benitez, stjóri Liverpool, þarf að brýna sinn besta mann, fyrirliðann Steven Gerrard. Ef hann spilar vel er Liverpool illviðráðanlegt.

Stuðningsmenn Liverpool voru fjölmennir í miðborg Aþenu í gær og máluðu bæinn rauðan, en margir þeirra eru ekki með miða á leikinn. Aðeins 63.800 áhorfendur verða á vellinum og ljóst er að stuðningsmenn Liverpool verða fleiri. Átta þúsund lögreglumenn gæta þess svo að allt fari vel fram.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×