Erlent

Lugovoj segist hafa sannanir fyrir sakleysi sínu

MYND/AP

Andrei Lugovoj, fyrrverandi njósnari hjá KGB, neitar því að hafa hafa orðið fyrrverandi félaga sínum, Alexander Litvinenko, að bana og segir ákæru sem bresk stjórnvöld hafa gefið út í málinu eiga sér pólitískar rætur.

Eins og kunnugt er lést Litvinenko, sem einnig er fyrrverandi njósnari hjá KGB, í Lundúnum í nóvember í fyrra eftir að eitrað hafði verið fyrir honum með geislavirka efninu pólon 210. Hefur breska lögreglan rannsakað málið og greindi í morgun frá því að Lugovoj yrði ákærður í málinu, en þeir Litvinenko hittust daginn sem Litvinenko veiktist.

Í samtali við fréttamenn í Moskvu í dag hló Lugovoj að ásökununum og sagðist hafa sannanir fyrir sakleysi sínu. Í sama streng hafa ráðamenn í Moskvu tekið og neita að framselja Lugovoj til Bretlands enda er enginn framsalssamfningur á milli landanna.

Litvinenko hélt því fram á dánarbeði sínum að rússnesk stjórnvöld hefðu staðið á bak við tilræðið á hendur sér en hann er svarinn andstæðingur Pútíns Rússlandsforseta. Því hafa rússnesk stjórnvöld algjörlega hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×