Erlent

Kominn til Ástralíu eftir rúm fimm ár í fangabúðunum á Kúbu

David Hicks dvaldi í fangabúðunum í rúm fimm ár.
David Hicks dvaldi í fangabúðunum í rúm fimm ár. MYND/AP

Eftir rúmlega fimm ára dvöl í fangabúðum Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu fékk Ástralinn David Hicks að snúa aftur til síns heima í dag. Hicks var handsamaður árið 2001 af herliði bandamanna í Afganistan og sakaður um að hafa aðstoðað við hryðjuverk.

Hinn rúmlega þrítugi Hics var fluttur beint í hámarksöryggisfangelsi þar sem hann mun dvelja næstu sjö mánuðina. Bandarískur herdómstóll dæmdi hann sjö ára fangelsi fyrr á þessu ári fyrir að hafa aðstoðað hryðjuverkamenn í Afganistan. Hicks játaði að hafa tekið þátt í þjálfun á vegum al-Kaída í Afganistan en neitaði að hafa vitað fyrirfram um hryðjuverkaárásarnar á Bandaríkin 11. september 2001.

Samkvæmt samningi sem hann gerði við ákæruvaldið mun hann aðeins sitja sjö mánuði af dómnum í fangelsi nærri Adelaide í Ástralíu en að þeim tíma loknum fær hann frelsi. Hicks dvaldist alls í rúm fimm ár í fangabúðunum í Guantanamo án þess að réttað væri yfir honum. Mörgum Áströlum þótti það óviðunandi og þrýst var á áströlsk stjórnvöld að hafa afskipti af málinu.

Hicks samþykkti fyrir heimkomu sína að ræða ekki við fjölmiðla næsta árið. Hann skrifaði undir yfirlýsingu þar sem fram kemur að hegðun yfirmanna í fangabúðunum gagnvart honum hafi undir engum kringumstæðum verið ólögleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×