Erlent

Górilla beit konu í dýragarði í Hollandi

Flytja þurfti tvo á spítala eftir að górilla gekk berserkgang í dýragarði í Hollandi í gær. Górillan réðst á konu sem stödd var í garðinum, dró hana um svæðið og beit hana.

Górillan virðist nokkuð viljasterk og ekki una vel við í búri því aðeins eru þrjú ár síðan hún slapp síðast úr búri sínu. Þá dvaldi hún í dýragarðinum í Berlín. Górillan Bokito er ellefu ára karlgórilla og vegur hundrað og áttatíu kíló.

Ekki er vitað hvernig hún náði í gær að komast út af svæði sínu en nokkuð hár steingarður umlykur það. Mikil skelfing greip um sig meðal fjölda gesta sem staddir voru í garðinum þegar atvikið átti sér stað.

Bokito náði að grípa konu sem stödd var í garðinum og draga hana á eftir sér nokkurn spöl áður en hún beit hana. Flytja þurfti konuna á slysadeild en meiðsl hennar reyndust ekki lífshættuleg. Górillan fór svo inn á veitingastað í dýragarðinum. Þar sem verðir náðu að fanga hana eftir að hafa skotið í hana deyfilyfjum.

Talsmaður dýragarðsins segir að unnið sé að því tryggja að górillan komist ekki aftur út fyrir sitt svæði í garðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×