Erlent

Fjórir handteknir fyrir morðið á kúrdísku stúlkunni

Yfirvöld í norðurhluta Íraks hafa handtekið fjóra menn í tengslum við morðið á kúrdískri stúlku sem var grýtt til bana fyrir að sjást á almannafæri með manni sem er súnní múslími. Myndband af morðinu fór sem eldur um sinu á Netinu í síðustu viku.

Tveir af fjórmenningunum eru skyldmenni stúlkunnar, sem hét Dua Khalil og var 17 ára gömul. Lögreglan leitar nú fjögurra manna til viðbótar sem einnig eru taldir hafa komið að árásinni á stúlkuna. Þeirra á meðal er frændi hennar sem sagður er vera upphafsmaður ódæðisins.

Lögreglan í héraðinu hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að grípa ekki inn í þegar stúlkan var grýtt og munu fjórir lögreglumenn sæta rannsókn vegna þess auk þess sem skipt hefur verið um lögreglustjóra í bænum eftir því sem CNN greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×