Erlent

Fundu sautján tonn af gull- og silfurpeningum

Björn Gíslason skrifar
Starfsmenn úr leiðangrinum skoða afrakstur ferðarinnar.
Starfsmenn úr leiðangrinum skoða afrakstur ferðarinnar. MYND/AP

Djúpsjávarkönnunarfyrirtæki er nýkomið úr leiðangri með það sem talið er mesti fjársóðsfundur sögunnar. Eftir því sem fram kemur á fréttavef CNN kom hópurinn með um 17 tonn af gull- og silfurpeningum sem talinn er frá nýlendutíma Bandaríkjanna.

Alls er um að ræða rúmlega 500 þúsund peninga sem hver er metinn á um þúsund dollara þannig að heildarverðmæti fjársjóðsins gæti verið um 500 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði nærrri 37 milljarða íslenskra króna.

Fjársjóðurinn fannst í skipi á hafsbotni á ótilgreindum stað í Atlantshafinu en fyrirtækið sem stóð að leiðangrinum vill ekki gefa upp staðinn af ótta við að skipum verði stefnt þangað í stórum stíl. Ekki liggur fyrir hversu gamalt skipið er en líkum er leitt að því að það sé 400 ára gamalt.

Fyrirtækið sem um ræðir hefur lengi stundað það að leita uppi menningarverðmæti á hafsbotni. Hefur það þegar fengið leyfi frá spænskum stjórnvöldum til að leita að flaki breska skipsins HMS Sussex sem sökk undan ströndum Gíbraltar á leið til sjóorrustu við Frakka á Miðjarðarhafi árið 1694. Telja sagnfræðingar að um níu tonn af gulli hafi verið í skipinu og að virði þess sé yfir 500 milljónir dollara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×