Erlent

Hóta árásum á París

Nicolas Sarkozy veifar til fólksins sem kom til að fylgjast með þegar hann ók niður Champs Elysees eftir embættistökuna í morgun.
Nicolas Sarkozy veifar til fólksins sem kom til að fylgjast með þegar hann ók niður Champs Elysees eftir embættistökuna í morgun. MYND/AP

Herskár íslamskur hópur hefur hótað árásum á París á næstu dögum í kjölfar þess að Nicolas Sarkozy varð forseti Frakklands. Hópurinn nefnist herdeild Abous Hafs Al-Masris og kennir sig við fyrrverandi leiðtoga al-Qaida í Afganistan.

Í yfirlýsingu á Netinu kallar hann Sarkozy bæði trúleysingja og síonista sem hafi blóð íslamskra barna, kvenna og gamlingja á höndum sínum og því verði háð heilagt stríð í höfuðborg Frakklands.

Hópurinn hefur áður lýst yfir ábyrgð á sprengjutilræðunum í Madríd í mars 2004 og í Lundúnum í júlí 2005 en ljóst þykir að hann stóð ekki á bak við þau.

Franskir leyniþjónstumenn rannsaka nú hvað er hæft í hótununum en íslamskir öfgamenn hafa áður haft í hótunum við Sarkozy og sagt hann taglhnýting Bandaríkjamanna og gyðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×