Erlent

Dönum hent út úr Evróvisjón vegna niðurskurðar?

Björn Gíslason skrifar
Drama Queen, fulltrúi Dana í Evróvisjón í ár.
Drama Queen, fulltrúi Dana í Evróvisjón í ár.

Hugsanlegt er að Danir verði útlokaðir frá Evróvisjón frá og með næsta ári vegna niðurskurðar hjá danska ríkisútvarpinu, Danmarks Radio, á útsendingum frá íþróttaviðburðum. Þetta kemur frá vef Politiken.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum stendur mikill niðurskurður fyrir dyrum hjá Danmarks Radio þar sem uppbygging nýrra höfuðstöðva á Amager fór langt fram úr áætlunum. Kemur niðurskurðurinn sérstaklega illa niður á íþróttadeild DR þar sem tveimur af hverjum þremur starfsmönnum verður sagt upp og ekki verður sýnt frá helstu íþróttaviðburðum á alþjóðavettvangi, eins og Ólympíuleikunum á næsta ári.

Reglur Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, kveða á um almenningsstöðvar verði að senda út að minnsta kosti 200 klukkustundir frá íþróttaviðburðum á ári og þær kröfur mun DR ekki uppfylla eftir niðurskurðinn.

Haft eftir framkvæmdastjóra EBU, Björn Erichsen, á vef Politiken að ef dregið verði svo mikið úr íþróttaútsendingum verði DR hugsanlega hent út úr EBU. Það þýðir að Danmörk getur ekki tekið þátt í Evróvisjón og sömuleiðis fær DR ekki fréttamyndir frá öðrum stöðvum innan EBU.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×