Erlent

Halldór Ásgrímsson sækir Eista heim

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, er nú staddur í Eistlandi.
Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, er nú staddur í Eistlandi.

Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, er nú staddur í Eistlandi þar sem hann fundar með þeim Andrus Ansip, forsætisráðherra og Matti Maasikas ráuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu þar í landi. Heimsóknin er liður í því að leggja áherslu á mikilvægi áframhaldandi samstarfs milli Eystrasaltsríkjanna og Norðurlanda.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Halldór heimsækir Eistland en landið sótti hann oft heim á meðan hann gegndi þingmennsku og ráðherradómi. Hann hélt setningarræðu á nýsköpunarráðstefnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem bar yfirskriftina „Science, Technology and Entrepreneurship", en það er upplýsingaskrifstofa ráðherranefndarinnar í Eistlandi sem stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við fjögur sendiráð aðildarlandanna.

Halldór fjallaði í ræðu sinni um þær breytingar sem orðið hafa í samstarfi landanna. „Frá opnun upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Eistlandi árið 1991 hefur svæðið í heild sinni breyst mikið til batnaðar," sagði Halldór. Hann sagði að innganga Eystrasaltsríkjanna opnaði á mörg tækifæri en bætti því við að stækkunin hefði einnig í för með sér aukna samkeppni. Því væri mikilvægt fyrir Eystrasaltslöndin og Norðurlöndin að standa saman. „Þrátt fyrir 16 ára samstarf milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, eigum við enn langt í land. Til að láta drauma og framtíðarsýn okkar rætast er nauðsynlegt að vinna saman," sagði Halldór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×