Íslenski boltinn

Rúnar Kristinsson á leið í KR

Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson mynd/gva

Knattspyrnumaðurinn Rúnar Kristinsson hjá Lokeren í Belgíu ætlar að ganga aftur í raðir KR í Landsbankadeildinni í sumar. Rúnar staðfesti þetta í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í dag, en óvíst er hvenær hann lýkur keppni með belgíska liðinu sem er í bullandi fallhættu í deildinni þegar tvær umferðir eru eftir. Rúnar gæti þó orðið klár í slaginn í þriðju umferðinni hér heima þegar KR mætir Val.

Rúnar spilaði með KR um tíu ára skeið og lék síðast með liðinu árið 1994 áður en hann hélt utan og gerðist atvinnumaður með Örgryte. Þaðan fór hann ti Lilleström og hefur verið hjá Lokeren í Belgíu síðan um aldamótin. Hann á að baki yfir 100 leiki með íslenska landsliðinu en lagði landsliðsskóna á hilluna árið 2004.

Rúnar staðfesti við fréttastofuna í dag að hann sé á heimleið í KR að öllu óbreyttu. Tímasetningin á heimkomu Rúnars fer eftir því hvenær belgíska lið hans Lokeren, lýkur keppni. Lokaumferðin í Belgíu er 19. maí og Rúnar gæti því verið löglegur fyrir leik KR og Vals í þriðju umferð 24. maí. En lendi Lokeren í næst neðsta sæti seinkar heimkomu Rúnars hins vegar um einn mánuð vegna umspilsleikja. Fyrir síðustu 2 umferðirnar er Lokeren í þriðja neðsta sæti, 5 stigum á undan næsta liði.  Rúnar er samningsbunidnn Lokeren til 30. júní og á eftir að fá sig formlega lausan.

Rúnar sagði að sín mál hefði verið að skýrast síðustu daga í framhaldi af viðræðum sem hann átti við Teit Þórðarson, þjálfara KR, og forráðamenn félagsins í síðustu viku. Ljóst er að hér er um gríðarlegan liðsstyrk að ræða fyrir KR inga enda Rúnar einn besti knattspyrnumaður landsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×