Fótbolti

Barthez er farinn frá Nantes

NordicPhotos/GettyImages

Óvíst er hvort markvörðurinn Fabien Barthez spili meira með franska liðinu Nantes, en hann smalaði börnum sínum upp í bíl og ók burt úr borginni í dag að sögn talsmanns félagsins. Barthez lenti í slagsmálum við nokkra óánægða stuðningsmenn liðsins um helgina og er sagður í losti eftir uppákomuna.

Talsmaður félagsins staðfesti að fimm drukknir stuðningsmenn liðsins hefðu stöðvað bíl Barthez eftir leik liðsins um helgina og sparkað í birfreiðina. Barthez fór þá út úr bílnum og réðist á einn þeirra, en öryggisverðir stöðvuðu slagsmálin.

"Honum var mjög brugðið við þetta og viðbrögð hans eru enginn leikaraskapur," sagði talsmaður Nantes og bætti því við að hann vissi ekki hvort markvörðurinn myndi snúa aftur til liðsins eða ekki. Nantes er í mikilli fallbaráttu í frönsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×