Fótbolti

Strachan í sannkallaðri sigurvímu

Gordon Strachan fagnaði vel og innilega í dag.
Gordon Strachan fagnaði vel og innilega í dag. MYND/Getty

Celtic gulltrygði meistaratitilinn í skosku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag með því að sigra Kilmarnock á útivelli, 2-1. Það var Japaninn Shunsuke Nakamura sem skoraði sigurmark Celtic beint úr aukaspyrnu þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma. Þjálfarinn Gordon Strachan lýsti sigurtilfinningunni eftir leikinn við vímu.

"Ég get ekki útskýrt fyrir nokkrum manni hvernig mér líður núna. Ég vildi óska að ég gæti það en ég get það ekki," sagði Gordon Strachan, stjóri Celtic, í sannkallaðri sigurvímu eftir leikinn. "Ég hef aldrei tekið eiturlyf en ég býst við því að þau áhrif séu eitthvað í líkingu við þá tilfinningu sem ég hef núna," sagði hann.

"Besta liðið vann deildina, það er ekki spurning," bætti Strachan við. "Það er munur á því að hafa á bestu einstaklingunum að skipa og besta liðinu. Ég er með besta liðið og leikmennirnir vilja einfaldlega ekki tapa. Þess vegna erum við svona sterkir," sagði Strachan.

Celtic er komið með 81 stig í deildinni eftir 34 leiki en Rangers er í öðru sæti með 68 stig. Hvorki Theódór Elmar Bjarnason né Kjartan Henry Finnbogason voru í leikmannahópi Celtic í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×