Erlent

Asnalæti vegna skúrs í Dallas

Buddy í dómhúsinu í Texas.
Buddy í dómhúsinu í Texas. MYND/AP

Það var heldur asnalegt mál sem tekið var fyrir í dómhúsi í Dallas í Texas í gær. Þar var asninn Buddy mættur í tengslum við deilur tveggja manna í borginni. Nágrannarnir John Cantrell og Gregory Shamoun deildu um skúr sem Shamoun er að byggja á lóð sinni.

Vegna óánægju með skúrinn sótti Cantrell asnann Buddy á búgarð sinn og kom honum fyrir í bakgarðinum hjá sér. Shamoun segir asnann hafa skitið út um allt og verið háværan og því hafi hann ákveðið að fara með málið fyrir rétt.

Þar reyndist asninn hins vegar hinn spakasti og ekkert bar á þeim asnalátum sem hann var sakaður um. Ekki kom þó til þess að kviðdómur þyrfti að leggja mat á trúverðugleika vitnisins því nágrannarnir komust að endanum að þeirri niðurstöðu að Shamoun keypti hluta af lóð Cantrells gegn því að asninn færi og Cantrell hætti við að kvarta til yfirvalda vegna skúrsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×