Erlent

Myndband sýnir hversu truflaður byssumaður var

Skotárásarmaðurinn í Virginíu sendi myndband til NBC sjónvarpstöðvarinnar sem hann útbjó að öllum líkindum milli árásanna tveggja. Þar líkir hann dauða sínum við píslardauða Jesú Krists. Skilaboð hans eru full af heift og á köflum reynist erfitt að skilja hvað hann er að segja.

Myndbandið sýnir glögglega hversu truflaður maður Cho Seung-hui var en myndbandið barst NBC sjónvarpsstöðinni í gær ásamt myndum af Cho Seung-hui með vopn.

Lögreglunni hefur hingað til ekki getað upplýst hvað Cho Seung-hui aðhafðist á milli árásanna tveggja. Fyrri árásin var gerð á stúdentagarði við Virginíu Tækniháskólann og hin um tveimur tímum síðar í einni af kennslustofum skólans. Svo virðist sem að á milli árásanna hafi Cho Seung-hui útbúið myndbandið og sett það í póst. Myndbandið var póstsent einni klukkustund og fjörtíu og fimm mínútum eftir fyrri skotárásina. Tveir létust í fyrr árásinni en þrjátíu í þeirri síðari. Árásarmaðurinn snéri svo byssunni að sjálfum sér og skaut sig.

Ljóst er að fyrstu viðvörunarbjöllur fóru að hringja innan skólans árið 2005 eftir að kennara Cho Seung-hui barst sláandi ritgerð frá honum. Lögreglu á háskólasvæðinu höfuð einnig borist kvartanir frá stúlkum sem sögðu hann sitja um sig.

Tilfinningar árásarmannsins sveiflast til í myndbandinu og á köflum virðist hann uppgefinn. Myndbandið sýnir særindi Cho Seung-hui í garð samnemenda sinna en hann upplifði hæðni og stríðni í sinn garð frá þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×