Ramon Castro, einn af eldri bræðrum Fidels Castro, sagði fréttamönnum í dag að Fidel væri á batavegi og hefði það gott. Spurður um hvort að búast mætti við Fidel opinberlega á næstunni svaraði hann engu. Forseti Bólivíu sagði nýverið að hann byggist við því að Fidel myndi láta sjá sig á leiðtogaráðstefnu sem haldin verður þann 28. apríl næstkomandi.
Ramon Castro, 82 ára, er nautgripabóndi sem hefur aldrei gegnt háttsettri stöðu innan stjórnar Fidels, yngri bróður síns, sem er 80 ára. Ekki er vitað hvað hrjáir Fidel Castro en hann hefur ekki sést opinberlega síðan í júlí á síðasta ári.