Erlent

Ný stjórnarskrá ESB fyrir 2009

AFP

Leiðtogar Evrópusambandsríkja skrifuðu í dag undir yfirlýsingu þess efnis að stjórnarskrá sambandsins verði endurnýjuð á næstu tveimur árum og leidd í gildi árið 2009. „Berlínaryfirlýsingin" er hún kölluð og var undirrituð í tilefni af 50 ára afmæli Rómarsáttmálans. Angela Merkel, kanslari Þýskalands sagði að þessu tilefni að ekkert væri því til fyrirstöðu að nefnd kæmi saman síðar á þessu ári til að ræða nýja stjórnarskrá.

Berlínaryfirlýsingin lítur um öxl til þess tíma er Evrópa var klofin og friður og skilningur á milli þjóða var ekki annað en hugmynd og leggur áherslu á betri tíð með tilkomu Evrópusamstarfs. „Við, íbúar Evrópu, höfum sameinast til hins betra", segir í yfirlýsingunni. Ekki er tæpt á umdeildum málum á borð við stækkun sambandsins og innlimun Tyrklands og fyrrum ríkja Júgóslavíu.

Hátíðahöldum vegna 50 ára afmælisins lýkur í kvöld með útitónleikum við Brandenburgarhliðið þar sem hinn aldni snillingur Joe Cocker syngur með heimþekktri strigarödd sinni fyrir gesti og gangandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×