Erlent

Húnninn Knútur er krúttlegur kútur

Oddur Ástráðsson skrifar
Ísbjarnarhnoðri er orðinn ástsælasta sjónvarpsstjarna Þýskalands. Litli kúturinn er bara 15 vikna gamall og heitir Knútur. Hann er kominn með eigin sjónvarpsþátt og blaðamannafundur með honum í morgun var í beinni útsendingu.

Annie Leibovitz, ljósmyndarinn heimsfrægi sem myndaði Leonardo diCaprio á Íslandi um daginn, er líka búin að taka myndir af Knúti. Myndirnar voru fyrir náttúruverndarherferð. Og miðvikudagsútgáfu þýska blaðsins Bild fylgdi risastór mynd af Knúti.

Athyglin á Knúti jókst til muna eftir að dýraverndunarsamtök sögðu í vikunni að best væri að lóga húninum í stað þess að láta hann alast upp í dýragarði. Umsjónarmenn hans í dýragarðinum segja að það væri út í hött og hafa þvert á móti tekið miklu ástfóstri við hann og ætla að takmarka sýningar á honum. Þeir höfðu Knút í hitakasa og hafa gefið honum mjólk úr pela. Knútur fékk meira að segja sinn eigin tuskubangsa, til að leika sér með.

Fyrstu tilvistardagar Knúts voru ekkert sældarbrauð. Móðir hans hafnaði honum og bróður hans strax frá fæðingu. Bróðirinn dó svo fljótlega. Þeir voru fyrstu ísbjarnarhúnar, sem fæðst höfðu í dýragarði í 33 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×