Enski boltinn

Warnock sendir Southgate tóninn

Neil Warnock er æfur út í Gareth Southgate hjá Middlesbrough
Neil Warnock er æfur út í Gareth Southgate hjá Middlesbrough NordicPhotos/GettyImages

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Sheffield United, sendi kollega sínum hjá Middlesbrough tóninn í fjölmiðlum í dag og sagði vinnubrögð Gareth Southgate bera vott um vanvirðingu í garð andstæðinga Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni.

Æsingur Warnock kemur í kjölfar þess að Southgate ákvað að hvíla nokkra af lykilmönnum sínum í leik gegn Manchester City í deildinni á dögunum til að spara þá fyrir einvígið gegn Manchester United í enska bikarnum í kvöld. Manchester City er í fallbaráttu líkt og Sheffield United og Warnock fullyrðir að Southgate hafi verið að gera Stuart Pearce greiða með því að tefla fram veikara liði í deildinni.

"Þetta er hneyksli. Ég veit að Southgate og Pearce eru vinir og ég veit að Boro er að fara spila við Manchester United - en ég væri til í að sjá hvernig stemmingin væri í herbúðum Boro ef þeir myndu tapa sex leikjum í röð. Það er glórulaust að lið eins og Middlesbrough skuli vanvirða lið eins og Sheffield United og Charlton sem eru í fallbaráttu með því að tefla ekki fram sínu sterkasta liði gegn Manchester City. Þetta eru vægt til orða tekið ógeðsleg vinnubrögð," sagði Warnock í samtali við Sky.

Southgate ákvað að hvíla þá Viduka, Arca og Woodgate fyrir leikinn gegn City í deildinni og Warnock segir að það hafi verið nóg til að gefa jafnvel Manchester City möguleika á sigri - en City var einmitt búið að tapa sex leikjum í röð fyrir leikinn.

"Ég myndi einmitt taka þessa þrjá leikmenn út ef ég mætti velja um að taka þrjá leikmenn út úr liði þeirra áður en þeir mættu mínu liði - og það að þeir skuli ekki hafa spilað á móti City lætur mig fá óbragð í munninn. Gareth er bara ungur knattspyrnustjóri og hann á eftir að læra af mistökum sínum. Þeir eiga að spila við West Ham á laugardaginn og ætli hann hvíli þá ekki sína bestu menn aftur þar til að gera Alan Curbishley vini sínum greiða. Þeir virðast vera að reyna að tjalda öllu til þess að vinna Manchester United í bikarnum - og ég vona að þeir fái allt sem þeir eiga skilið út úr þeim leik," sagði Warnock.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×