Enski boltinn

Benitez: Við verðum að skapa okkur fleiri færi

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, viðurkenndi að hans menn hefðu ekki spilað vel í markalausu jafntefli gegn Aston Villa á útivelli í dag. Hann sagði sína menn ekki nógu beitta í sóknarleiknum.

"Þetta var ekki góður leikur af okkar hálfu og það eina jákvæða við hann var að við fengum eitt stig í viðbót til að tryggja stöðu okkar í fjórða sætinu. Við héldum boltanum vel, en þegar kom að því að klára fyrir framan mark andstæðinganna - vorum við andlausir. Robbie Fowler fékk færi til að stela sigrinum í lokin, en við verðum að skapa okkur fleiri færi ef við ætlum að vinna svona leiki," sagði Benitez.

Kollegi hans Martin O´Neill var heldur ekki of sáttur við leik sinna manna. "Þessi leikur var eins og skák. Við hefðum ef til vill átt að fá vítaspyrnu, en ég er ekki frá því að strákarnir hafi verið dálítið ragir eftir að hafa spilað vel og tapað gegn Arsenal á dögunum. Við getum spilað betur og verðum sérstaklega að gera það á heimavelli," sagði O´Neill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×