Enski boltinn

Ferguson: Frábær úrslit

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson var mjög ánægður með frammistöðu sinna manna í dag þegar Manchester United burstaði Bolton 4-1 á Old Trafford og styrkti stöðu sína á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

"Þetta voru frábær úrslit hjá okkur í dag gegn sterku liði Bolton sem lætur okkur alltaf vinna fyrir kaupinu okkar. Það var gaman að fá fjögur mörk á heimavelli á þessum árstíma og ég held að þetta gefi best mynd af því sjálfstrausti sem er í liðinu um þessar mundir," sagði Ferguson og geymdi hluta af hrósinu handa manni leiksins - Cristiano Ronaldo.

"Ronaldo er búinn að eiga stórkostlega leiktíð en ég ætla ekki að setja einn leik ofar öðrum í því sambandi. Hann er búinn að vinna gríðarlega vel í hverjum einasta leik í vetur. Samvinna hans og Wayne Rooney var frábær - ekki síst í öðru markinu," sagði Ferguson og var enn á ný spurður út í orðróminn um að Ronaldo væri á förum frá félaginu.

"Menn eiga eftir að slúðra um þetta áfram og ég held að megnið af því komi frá umboðsmanni hans. Ég vona bara að hann leyfi okkur að semja við hann í friði," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×