Enski boltinn

David Platt: Kampavínsbolti Arsenal skilar ekki titlum

Arsenal verður að sýna meiri grimmd að mati fyrrum leikmanns liðsins, David Platt
Arsenal verður að sýna meiri grimmd að mati fyrrum leikmanns liðsins, David Platt NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum landsliðsmaðurinn David Platt segir að þó Arsenal spili fallega og skemmtilega knattspyrnu, verði liðið að fórna hluta af þeirri stefnu sinni ef það ætli sér að vinna fleiri titla. Hann segir liðið líka skorta markaskorara við hlið Thierry Henry.

Arsenal féll úr keppni í Meistaradeild Evrópu í gær þrátt fyrir yfirburði sína gegn hollenska liðinu PSV Eindhoven í báðum leikjum liðanna. David Platt gagnrýnir liðið í viðtali við Sky sjónvarpsstöðina.

"Fólk hefur verið að tala um það lengi að vanti grimmd í lið Arsenal ef það á að ná betri árangri og ég get ekki ímyndað mér annað en að menn séu nú einnig að tala um það innan raða liðsins. Arsenal er ekki nógu grimmt lið og því er það ekki að vinna titla.

Meira að segja hörðustu stuðningsmenn Manchester United og Chelsea viðurkenna að ef þeir ættu að setjast niður og horfa á skemmtilegan knattspyrnuleik - yrði Arsenal vafalaust fyrir valinu. Arsenal spilar mjög skemmtilega knattspyrnu - en það er ekki nóg til að vinna titla.

Liðið er búið að tapa leikjum í deildinni í vetur vegna þessa sama vandamáls - liðið hefur ekki næga grimmd og sigurvilja og það er ekki nóg að fara inn í leiki með það fyrir augum að spila skemmtilegan fótbolta. Það er fínt að spila fallega, en maður verður fyrst og fremst að hugsa um að vinna - svo er hægt að fara að spila skemmtilega.

Arsenal vantar hreinan markaskorara með Thierry Henry sem gefur liðinu 20-25 mörk á tímabili og er vægðarlaus fyrir framan markið. Liðið getur haldið áfram að spila kampavínsbolta en þá vinnur það heldur ekki marga titla," sagði Platt, sem var í liði Arsenal sem vann tvöfalt árið 1998. Hann segir að þó liðið þá hafi spilað fallegan bolta, hafði það lið líka haft þá hörku sem til þurfti til að skila titlum í hús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×