Erlent

Funda um aðgerðir gegn Írönum

Erindrekar þjóðanna sem eiga fastafulltrúa í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna auk Þjóðverja hittast í London í dag til að ræða stöðuna sem upp er komin vegna kjarnorkumála Írana. Í síðustu viku sögðu fulltrúar Alþjóðakjarnorkumálaráðsins að þeir hefðu fundið gögn sem sönnuðu að Íranir auðguðu enn úran.

Ahmandinejad Íransforseti hefur haldið því statt og stöðugt fram að Íranir framleiddu kjarnorku í friðsamlegum tilgangi og síðast í gær líkti hann kjarnorkuáætluninni við bremsulausa lest sem bara mundi halda áfram í sömu átt.

Búist er við því að ákveðið verði að beita Írani harðari viðskiptaþvingunum en áður til að reyna að neyða þá til hlýðni. Condoleeza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði þó í gær að ef Íranir létu af kjarnorkuáætlunum sínum væru Bandaríkjamenn tilbúnir til viðræðna við klerkastjórnina í Teheran um jákvæð pólitísk samskipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×