Erlent

Enn óveður á Norðurlöndum

Það var ekki fyrr en um ellefu leytið í gærkvöldi að norska hraðbrautin E18 sem liggur á milli Kristjánssands og Grímstaðar var opnuð en þá höfðu um þúsund manns setið pikkfastir í bílum sínum allan daginn, sumir hátt í 20 klukkustundir. Ástæðan fyrir þessari þrásetu var kafaldsbylur og ofankoma en sjá mátti eins og hálfs metershá snjóskafla á hraðbrautinni.

Snjókoman og mikill vindur hefur angrað frændur vora Norðmenn í Suður-Noregi frá því í gærmorgun. Mikill óánægja hefur verið með störf vegayfirvalda þar sem fólki þykir að þau eigi að vera betur búin undir veturinn en raun ber vitni síðastliðinn einn og hálfan sólarhring. Veðurfræðingar í Noregi spá því að það haldi áfram að snjóa í Suður-Noregi fram á sunnudag og að auki verði strekkingsvindur þar um slóðir.

Íbúar á Skáni í Suður-Svíþjóð glímdu líka við Vetur konung í dag og flug-og lestarsamgöngur lágu niðri í Danmörku vegna veðursins í dag og þurfti flugfélagið SAS að aflýsa 93 flugferðum í gegnum Kastrup-flugvöll í dag og hefur félagið því þurft að aflýsa 400 flugferðum síðan óveðrið tók að herja á Dani á miðvikudag.

Dönsk lögregluyfirvöld ráðlögðu fólki að halda sig heimavið vegna óveðursins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×