Erlent

Nærri hundrað flugferðum á vegum SAS aflýst

Frá Aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn í gær. Miklar tafir hafa orðið á lestarsamgöngum vegna fannfergis í Danmörku.
Frá Aðalbrautarstöðinni í Kaupmannahöfn í gær. Miklar tafir hafa orðið á lestarsamgöngum vegna fannfergis í Danmörku. MYND/AP

Illviðri í Danmörku heldur áfram að hafa áhrif á samgöngur þar í landi og nú hefur norræna flugfélagið SAS aflýst nærri hundrað flugferðum til og frá Kastrup-flugvelli vegna þess.

Ástæðan er ekki sú að brautirnar séu á kafi í snjó heldur er vindáttin með þeim hætti að aðeins er hægt að nýta eina af flugbrautum vallarins. Alls voru 330 flugferðir frá SAS áætlaðar í dag og ekki er útilokað að fleirum verið aflýst vegna veðursins en gær var nærri 170 flugferðum aflýst af sömu orsökum.

Þá hafa 23 setið fastir í lest norðarlega á Jótlandi frá því í gærkvöld eftir að lestin festist í snjó. Til stóð að önnur lest færi og drægi hana á brautarstöð en það mistókst og því þurfti að kalla til sérstaka plógslest sem væntanleg er á staðinn í eftirmiðdaginn.

Tvö alvarleg umferðarslys hafa orðið sem rekja má til slæmrar færðar í Danmörku. Ökumaður saltdreifingarbíls lést nærri bænum Svendborg snemma í morgun þegar hann ók á flutningabíl sem runnið hafði þversum á veginn. Þá meiddust tveir, þar af annar alvarlega, í slysi á vegi milli bæjarins Faaborg og Óðinsvéa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×