Innlent

Aðstoð við Byrgisfólk takmörkuð

Móðir stúlku sem kært hefur Guðmund í Byrginu segir það hneyksli hversu hægt gangi að veita fyrrverandi vistmönnum þá aðstoð sem forsætisráðherra lofaði í síðustu viku.

Ríkisstjórnin ákvað fyrir röskri viku að koma á fót áfallateymi á Landspítalanum til að liðsinna og leiðbeina fyrrum skjólstæðingum Byrgisins. Ekki virðist sú aðstoð þó vera komin í fullan gang. Við ræddum í dag við Birnu Dís Vilbertsdóttur, móður stúlku á þrítugsaldri sem var í Byrginu og er ein þeirra sjö sem hefur kært forstöðumanninn fyrir kynferðislega áreitni. "Hún er húsnæðislaus, peningalaus, matarlaus og allslaus," segir Birna um aðstæður dóttur sinnar í dag.

Birna er ekki sátt við hvernig staðið er að aðstoðinni við fyrrum vistmenn í Byrginu. "Hún er búin að fá eitt viðtal við félagsráðgjafa, átti að mæta í dag í greiningarviðtal en því var frestað fram í næstu viku og það er ekki tekið mark á greiningu Péturs Haukssonar um áfallaröskun sem hann greinir hana með fyrir um tveimur vikum síðan."

Birna segir dóttur sína þurfa hjálp núna. Aðstoð frá sálfræðingi og aðstoð við að útvega sér húsnæði en dóttir hennar hefur verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði í á annað ár. Eina aðstoðin sem hún hafi fengið er eitt viðtal við félagsráðgjafa. "Þetta er skandall," segir Birna.

Fjórir sérfræðingar eru í áfallateymi Landspítalans fyrir fyrrum skjólstæðinga Byrgisins, hjúkrunarfræðingur, félagsráðgjafi, sálfræðingur og læknir. Ekki náðist í talsmann teymsisins í dag.

 

 

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×