Enski boltinn

Bellamy lamdi Riise með golfkylfu

Craig Bellamy hefur alla tíð verið mjög iðinn við að koma sér í vandræði utan vallar
Craig Bellamy hefur alla tíð verið mjög iðinn við að koma sér í vandræði utan vallar NordicPhotos/GettyImages

Norskir fjölmiðlar greina frá því í kvöld að Craig Bellamy hafi lamið liðsfélaga sinn John Arne Riise ítrekað með golfkylfu á hóteli í Portúgal á föstudagskvöldið. Liverpool er nú í æfingabúðum þar í landi og er þetta ekki eina skrautlega uppákoman í ferðinni ef marka má fréttir úr bresku blöðunum.

Riise er sagður hafa lagst til svefns á hótelherbergi sínu eftir að leikmennirnir fóru út á lífið á föstudagskvöldið, en skömmu síðar hafi Bellamy brotið þar upp hurðina og barið Riise ítrekað með golfkylfu. Fréttir herma að Riise sé blár og marinn eftir árásina. Sagt er að mál þetta muni verða efst á baugi í fjölmiðlum á Englandi á morgun, sunnudag.

Þetta er ekki eina leiðindauppákoman úr herbúðum Liverpool úr æfingaferðinni, því sama kvöld greinir Daily Mail frá því að þeir Jerzy Dudek, Robbie Fowler og Jermaine Pennant hafi farið á mikið fyllerí og að í framhaldinu hafi þurft að kalla til lögreglu. Dudek á að hafa verið færður í handjárn af lögreglu.

Ef eitthvað af þessum fréttum reynast sannar er ljóst að Rafa Benitez knattspyrnustjóri Liverpool hefur nóg að gera við að koma á aga í herbúðum sínum á næstu dögum - en það er nokkuð sem hann gæti vafalaust verið án á síðustu dögunum í undirbúningi fyrir Meistaradeildareinvígið við Evrópumeistara Barcelona í vikunni.

Menn á borð við Craig Bellamy og Jermaine Pennant hafa enda verið undir smásjánni síðan þeir gengu í raðir Liverpool vegna ótal afbrota og asnastrika undanfarin ár og nú er bara að bíða og sjá hvað verður þegar málið verður rannsakað frekar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×