Enski boltinn

Neville vill útrýma umboðsmönnum

NordicPhotos/GettyImages

Gary Neville, fyrirliði Manchester United, vill að umboðsmenn heyri sögunni til í knattspyrnunni. Hann segir að umboðsmenn hirði til sín of hátt hlutfall af tekjum í boltanum og segir að leikmenn ættu frekar að bera ábyrgð á sér sjálfir.

"Samtök atvinnuknattspyrnumanna eru nógu sterk samtök til að sjá um leikmannamál í deildinni og ég vil sjá umboðsmennina hverfa á braut úr leiknum. Samtökin eru nógu sterk til að gæta hagsmuna yngri leikmanna sem eiga ekki að vera háðir umboðsmönnum - sem ræna þá stórum hluta þeirra peninga sem þeir vinna sér inn. Samtökin stunda ekki að hirða af leikmönnum, heldur þvert á móti eru þau gefandi.

Ég get bara ekki skilið hvernig umboðsmenn geta réttlætt það fyrir sér að hirða hundruði þúsunda - og í sumum tilvikum milljónir punda, fyrir það eitt að sjá um hagsmuni skjólstæðinga sinna. Allir þessir peningar eru að leka út úr íþróttinni og ættu heldur að vera í höndum knattspyrnufélaganna. Þetta verður að mínu mati að breytast og ég held að leikmenn ættu að athuga sinn gang og taka meiri ábyrgð á eigin málum. Maður þarf vissulega að hafa góðan bókara, en það er engin ástæða til að moka háum upphæðum í umboðsmenn," sagði Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×