Enski boltinn

Ferguson ætlar að gefa ungliðunum tækifæri á næsta ári

AFP

Sir Alex Ferguson segist vera mjög ánægður með efnilegan hóp ungliða hjá félaginu og hefur látið í það skína að hann muni gefa fjölda þeirra tækifæri með aðalliðinu á næstu leiktíð. Frábær árangur United síðustu árin er einmitt að miklum hluta byggður á ungliðum félagsins sem kallaðir voru ´92 árgangurinn.

Þetta voru leikmenn á borð við Neville-bræður, Paul Scholes, Nicky Butt, Ryan Giggs og David Beckham. Í dag eru að koma upp hjá félaginu leikmenn á borð við Giuseppe Rossi, Ben Foster, Johnny Evans, Lee Martin og Phil Bardsley.

"Við erum mjög ánægðir með ungu strákana hérna hjá félaginu og þeir hafa lagt hart að sér undanfarið. Írarnir þrír - Johnny Evans, Craig Cathcart og Darron Gibson eru frábærir.

Við erum líka með Lee Martin hjá Stoke, Danny Simpson hjá Sunderland og Phil Bardsley hjá Aston Villa. Gerard Pique er í byrjunarliði Zaragoza í hverri viku og Giuseppe Rossi er farinn að skora mörk hjá Parma.

Þessir drengir eru allir með bjarta framtíð og eru í kring um 19 ára aldurinn, nokkuð sem sýnir okkur að framtíðin er björt. Þeir hafa allir gott af því að fara sem lánsmenn og fá að spila og þeir vilja ólmir koma til baka og sanna sig," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×