Erlent

Sex leikvangar opnir fyrir áhorfendum á Ítalíu um helgina

Samkvæmt ákvörðun ítalskra yfirvalda er heimavöllur Catania á Sikiley í hópi þeirra leikvanga þar sem áhorfendur fá ekki inngöngu fyrr en viðeigandi öryggisráðstafanir hafa verið gerðar.
Samkvæmt ákvörðun ítalskra yfirvalda er heimavöllur Catania á Sikiley í hópi þeirra leikvanga þar sem áhorfendur fá ekki inngöngu fyrr en viðeigandi öryggisráðstafanir hafa verið gerðar. MYND/AP

Ítalska ríkisstjórnin tilkynnti í dag að opna mætti sex knattspyrnuleikvanga fyrir áhorfendum um helgina en aðrir yrðu lokaðir þar til viðeigandi ráðstafanir hefðu verið gerðar sem tryggðu öryggi áhorfenda. Vellirnir sem um ræðir eru í Róm, Genúa, Siena, Cagliari, Tórínó og Palermo.

Ákvörðunin var tekin eftir að lögreglumaður lést á föstudaginn var í tengslum við átök stuðningsmanna sikileysku liðanna Palermo og Catania fyrir utan heimavöll síðarnefnda liðsins. Leikir helgarinnar á öðrum völlum fara því fram fyrir luktum dyrum en með þessu vilja ítölsk yfirvöld skera upp herör gegn knattspyrnubullum sem hafa haft sig mikið í frammi á ítölskum völlum að undanförnu.

Evrópusambandið hefur látið til sín taka í málinu því Franco Frattini, yfirmaður dóms- og öryggismála innan ESB, hefur óskað eftir fundi með Michel Platini, nýkjörnum formanni Knattspyrnusambands Evrópu, um ofbeldi og kynþáttahatur í tengslum við knattspyrnuleiki og leiðir til að vinna gegn því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×