Enski boltinn

Gillett: Ég verð hengdur ef ég sting upp á samstarfi við Everton

Gillett og Hicks keyptu fornfrægt félag Liverpool í dag.
Gillett og Hicks keyptu fornfrægt félag Liverpool í dag. AFP

Ameríski auðjöfurinn George Gillett sem keypti Liverpool í dag segir ekki koma til greina að deila nýjum heimavelli með Everton eins og breskir fjölmiðlar héldu fram í dag. Hann segir að sér hafi verið gert það ljóst um leið og hann minntist á vallarmál að hann yrði hengdur ef hann áformaði að deila velli með grönnunum bláklæddu.

"Ef einhver sá mig tala við forráðamenn Everton, hefur sá hinn sami líklega séð illan tvíburabróður minn - því ég hef ekk sagt eitt orð við þá. Ég spurði Rick Parry framkvæmdastjóra hvort til greina kæmi að deila velli með Everton í framtíðinni og hann leit alvarlegur á mig og sagði mér að þá myndi hann segja af sér með það sama.

Mér hefur verið gert það ljóst að ég verði hengdur ef ég komi með slíka tillögu upp á borðið og því er ljóst að ekkert verður af slíku samstarfi. Þetta hefur ekkert með það að gera að okkur sé illa við Everton, en það er ekkert til í þessum fréttaflutningi, " sagði Gillett.

Bandaríkjamennirnir George Gillett og Tom Hicks sem keyptu Liverpool í dag hafa lýst því yfir að knattspyrnustjórinn Rafa Benitez muni halda starfi sínu áfram fyrir félagið, Rick Parry mun áfram verða framkvæmdastjóri og þá verður fráfarandi stjórnarformaðurinn David Moore verið gerður að heiðursforseta félagsins.

Tvímenningarnir Gillett og Hicks voru spurðir að því á blaðamannafundi í dag hvort til greina kæmi að selja nafn heimavallarins fornfræga Anfield í hendur styrktaraðila, en þeir svöruðu því til að slíkt kæmi ef til vill til greina ef það þýddi að í staðinn gæti félagið keypt einn heimsklassaleikmann á ári í staðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×