Erlent

Mannskæðar sprengjuárásir á sjíahátíð

Sjálfspyntingar eru fastur liður í minningarathöfnum um sonarson Múhameðs á asjúradeginum.
Sjálfspyntingar eru fastur liður í minningarathöfnum um sonarson Múhameðs á asjúradeginum. MYND/AP

Þrátt fyrir mikla öryggisgæslu víðast hvar þar sem sjíamúslimar halda upp á asjúradaginn, þá hafa þegar orðið mannskæðar árásir í Írak, þangað sem pílagrímar flykkjast þessa dagana, þrátt fyrir ótryggt ástand í landinu. 32 pílagrímar hafa látist í tveimur öflugum sprengjuárásum með klukkutíma millibili norðaustur af Bagdad í morgun.

Þar af létust 23 þegar maður sprengdi sig í loft við mosku sjíamúslima á Baladruz-svæðinu norðaustur af Bagdad. Þá létust níu þegar sprengja sprakk við veg þar sem sjíamúslimar gengu í fylkingu og fjórir létust í skotárás í suðurhluta Bagdad.

Hátíðin er til að minnast dauða sonarsonar Múhameðs spámanns, Husayn ibn Ali, sem lést í kringum árið 680 e.Kr. að okkar tímatali. Sjíamúslimar álíta hann þriðja ímaminn og réttmætan arftaka Múhameðs en þar skilur einmitt á milli sjía og súnnímúslima. Súnnímúslimar minnast þess hins vegar í dag að bæði Móses og síðar Múhameð föstuðu þennan dag.

Mikil spenna er víða í arabaheiminum, þó hvergi meiri en í Írak þar sem áætlað er að um tvær milljónir pílagríma séu komnar til Kerbala, suður af Bagdad. Þar er talið að Husayn hafi verið grafinn eftir orrustuna miklu við Kerbala árið 680 e.Kr, eða árið 61, samkvæmt íslömsku tímatali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×