Erlent

Safnað fyrir Líbanon

Jaques Chirac Frakklandsforseti (t.h.) bauð Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons velkominn til Parísar í gærdag.
Jaques Chirac Frakklandsforseti (t.h.) bauð Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons velkominn til Parísar í gærdag. MYND/AP

Háttsettir stjórnmálamenn víða að úr heiminum koma saman til fundar í París í dag til að safna í sjóð til uppbyggingar í Líbanon eftir stríðið síðastliðið sumar. Bandaríkin og Frakkland hafa þegar lofað um hundrað milljörðum íslenskra króna í styrki og hagstæð lán en líbönsk stjórnvöld vonast til að safna um það bil sexfaldri þeirri fjárhæð.

Fulltrúar 40 landa taka þátt í söfnunarráðstefnunni.

Líbanon beið mikinn efnahagslegan skaða af sprengjuárásum Ísraela síðastliðið sumar þegar Ísraelar reyndu að stöðva skæruliðaárásir Hisbollah í eitt skipti fyrir öll. Talsverðan pening þarf til að byggja aftur upp vegi, brýr, skóla, sjúkrahús, íbúðarhús og önnur mannvirki sem eru ónýt eftir stríðið. Þá var stríðið talsverð blóðtaka fyrir trúverðugleika efnahagsins sem rétt var að rétta úr kútnum eftir 13 ára borgarastríð á áttunda og níunda áratugnum.

Þrír létust í mótmælum stjórnarandstöðunnar í fyrradag, þar sem reynt var að setja þrýsting á ríkisstjórn Siniora að segja af sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×