Erlent

Varað við frekari sprengjutilræðum í Bangkok

Taílenskir hermenn standa vörð á neðanjarðarlestarstöð í Bangkok í gær en yfirvöld óttast frekari árásir líkar þeim sem gerðar voru á gamlárskvöld.
Taílenskir hermenn standa vörð á neðanjarðarlestarstöð í Bangkok í gær en yfirvöld óttast frekari árásir líkar þeim sem gerðar voru á gamlárskvöld.

Yfirvöld í Taílandi hafa varað almenning við frekari sprengjuárásum líkum þeim sem gerðar voru á gamlárskvöld í höfuðborginni Bangkok. Þá sprungu átta sprengjur á stuttum tíma í höfuðborginni með þeim afleiðingum að þrír létust og að minnsta kosti 30 særðust.

Mikill viðbúnaður er í borginni vegna þessa og á taílenska þinginu varaði forsætirsráðherra herforingjastjórnarinnar í landinu, Surayud Chulanont, við frekari árásum án þess að segja meira um málið.

Ríkisstjórnin, sem rændi völdum með því að steypa stjórn Thaksin Shinawatra af stóli í september, hefur ýjað að því að stjórnmálamenn sem komið var frá völdum þá hafi staðið á bak við tilræðin á sunnudaginn en enginn hefur verið handtekinn vegna þeirra. Því hefur Shinawatra neitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×