Erlent

Kampusch hefði getað komist hjá mannráni

Natascha Kampusch sagði í viðtali í dag að hún hefði getað komist hjá því að vera rænt af manninum sem hélt henni í 8 ár, ef hún hefði bara farið yfir götuna þegar hún sá að hann elti sig á bíl sínum daginn örlagaríka árið 1998. Hún var hins vegar hrædd um að það liti asnalega út. Viktor Priklopil hélt Natöschu fanginni í kjallaraholu undir bílskúrnum í átta ár.

Hin austurríska Kampusch slapp frá mannræningja sínum á harðahlaupum í ágúst síðastliðnum eins og frægt er orðið. Mannræninginn Priklopil framdi sjálfsmorð þegar hann sá að hún var sloppin.

Hún sagði sögu sína í 50 mínútna löngu viðtali á austurrísku sjónvarpsstöðinni ORF í kvöld, frá fyrsta degi og eins hvernig líf hennar var í vistinni.

Hún segist muna skýrt og greinilega daginn sem hún var að ganga heim úr skólanum og Priklopil stöðvaði sendiferðabíl við hliðina á henni og henti henni þar inn. "Ég hafði þegar tekið eftir honum úr fjarlægð og hugsaði með mér: "hvað er þessi gaur að gera hérna?" Einhvern veginn hafði ég á tilfinningunni að eitthvað væri ekki í lagi, hann virtist skrýtinn."

"En ég fór ekki yfir götuna af því ég var hrædd um að bílarnir myndu keyra yfir mig. Ég hélt að það væri ekki nauðsynlegt. Ég vildi ekki gera mig að fífli, þannig að ég hélt bara áfram göngunni," sagði Natascha sjónvarpsáhorfendum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×