Erlent

Ingibjörg segir Peres vongóðan um frið

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að Shimon Peres nýr forseti Ísraels sé bjartsýnn á friðarferlið á svæðinu þrátt fyrir að mörg tækifæri hafi glatast á síðustu misserum. Ingibjörg er fyrst erlendra ráðamanna til að hitta Peres eftir að hann tók við forsetaembætti.

Ingibjörg heimsótti Helfararsafnið Yad Vashem í Jerúsalem ásamt fylgdarliði í morgun áður en hún fór á fund með nýkjörnum forseta Ísrael Shimon Peres.

Hún segir að það sé merkilegt að hitta Peres sem hafi gegnt lykilembættum í stjórnmálum 60 ár. Aðalumræðuefnið hafi verið friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hún segir að Peres sé bjartsýnn en hann telji fyrirhugaðan friðarfund George Bush Bandaríkjaforseta enga tímamóta yfirlýsingu. Peres telji hins vegar að nú sé ákveðið tækifæri til að ná árangri, en hann hafi verið harðorður í garð Hamas.

Á morgun heldur ráðherrann til landamæra Ísraels við Gaza, en á fimmtudag er ferðinni heitið á fund Mahmoud Abbas forseta Palestínu og forsætisráðherrans, Salam Fayyad, í Ramallah í Palestínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×