Erlent

Bresk börn hafa það verst

Íslensk börn hafa það nokkuð gott
Íslensk börn hafa það nokkuð gott

Lífsgæði barna í iðnvæddum ríkjum eru minnst í Bretlandi. Þetta kemur fram í skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF sem kom út í dag. Skýrslan tekur til 40 þátta er varða lífsgæði barna í 21 iðnvæddu ríki og er fyrsta rannsókn sinnar tegundar.

Bresk börn eru langt undir meðaltali þegar kemur að fjölda sem býr undir fátæktarmörkum og er heilsufar þeirra verra. Einnig hefur mikið að segja hversu eiturlyfjaneysla er algeng meðal breskra barna. Hvað varðar menntun eru bresku börnin eilítið betur sett en þau voru hinsvegar í botnsætinu á öllum öðrum sviðum rannsóknarinnar.

Bandarísk börn hafa það næst verst barna í iðnvæddum ríkjum. Löndin sem best komu út úr rannsókninni voru Holland, Svíþjóð og Danmörk. Samkvæmt skýrslunni eru engin skýr tengsl á mili þess hversu ríkar þjóðir eru og hvernig þau sinna börnunum sínum. Til dæmis kemur Tékkland talsvert betur út en Frakkland, þó að Frakkland sé talsvert ríkari þjóð.

Íslensk börn utangarðs

Ísland kemur vel út úr skýrslunni hvað varðar heilsufar barna, en aðeins er hugað betur að barnaheilsu í Svíþjóð. Þegar kemur að menntun stendur Ísland sig meðalvel, verr en Belgía, Kanada, Pólland og fleiri lönd. Athygli vekur að mun fleiri börn telja sig utangarðs í samfélaginu á Íslandi en að meðaltali í iðnvæddum ríkjum, 10% á meðan meðaltalið er nær 5%.

Hólmfríður Anna Baldursdóttir upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi verður í Hádegisviðtalinu á Stöð 2 og mun þar ræða helstu niðurstöður skýrslunnar.

Hér fyrir neðan má sjá skýrsluna í heild sinni á ensku á pdf-formi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×