Erlent

Alvarlega vanræktir drengir á munaðarleysingjahæli í Baghdad

Vera Einarsdóttir skrifar

Bandaríski herinn fann um tuttugu vanrækta drengi á írönsku munaðarleysingjahæli fyrir börn með sérþarfir í Baghdad. Drengirnir fundust í síðustu viku þegar ráðgjafarteymi bandaríska hersins var í eftirlitsferð með írönsku hermönnum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Drengirnir voru naktir og nær dauðir úr hungri. Hermennirnir tóku eftir þeim liggjandi á gólfi hælisins og töldu þá í fyrstu látna. Þeir brugðu á það ráð að kasta til þeirra bolta til að kanna viðbrögð og lyfti þá einn drengurinn upp höfðinu.

Drengirnir lágu á steinsteyptu gólfi útataðir í eigin úrgangi. Bandarísku hermennirnir fundu matarbirgðir í eldhúsi og glæný föt í geymslu. Þegar þeir komu á hælið var starfsfólkið að elda mat handa sjálfu sér. Þrátt fyrir að munaðarleysingjahælið hafi verið mannað starfsfólki hafa drengirnir verið vanræktir með þessum hætti í meira en mánuð að sögn hersins. Þeir telja líklegt að fötin sem ætluð voru drengjunum hafi verið seld.

Starfsfólk hælisins hefur látið sig hverfa eftir uppgötvunina en íranski forsætisráðherrann Nouri Maliki hefur látið handtaka tvo öryggisverði á hælinu. Drengirnir hafa verið fluttir á annað munaðarleysingjahæli og eru að byrja að ná sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×