Enski boltinn

Hiddink að taka við af Mourinho?

Guus Hiddink er farinn að sýna á sér fararsnið í Rússlandi
Guus Hiddink er farinn að sýna á sér fararsnið í Rússlandi

Þær fréttir ganga nú fjöllum hærra í breskum blöðum að hollenski þjálfarinn Guus Hiddink muni taka við liði Chelsea í sumar því Jose Mourinho sé að íhuga að hætta. Því er haldið fram að Roman Abramovic sé með Hiddink í sigtinu sem eftirmann Mourinho.

Hiddink er núverandi landsliðsþjálfari Rússa í knattspyrnu og þekkir því vel til Abramovic sem hefur varið miklu fé til uppbyggingar í rússneskri knattspyrnu. Hiddink segist þekkja Abramovic mjög vel og segir hann halda sig hæfilega til hlés þó hann sé einn af máttarstólpum rússneskrar knattspyrnu.

Hiddink er orðinn vel þekktur sem málaliði í knattspyrnuheiminum og hefur náð ótrúlegum árangri með bæði lands- og félagslið á undanförnum árum. Hann sagði í samtali við Sky sjónvarpsstöðina að hann væri þegar farinn að íhuga að láta eftirmanni sínum og aðstoðarþjálfara Alexander Borodjuk eftir stjórnartaumana hjá Rússneska landsliðinu. Það er því eðlilegt að menn lesi milli lína í orðum Hollendingsins, sem greinilega virðist vera farinn að horfa til næsta verkefnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×