Erlent

Taka vel í eldflaugavarnir

Ríkisstjórnir Póllands og Tékklands eru fylgjandi því að Bandaríkjamenn fái að setja upp búnað fyrir eldflaugavarnakerfi sitt í löndunum tveimur, sem á sínum tíma voru í Varsjárbandalaginu en gengu í Atlantshafsbandalagið árið 1999 og Evrópusambandið árið 2004.

„Við vorum sammála um að báðar ríkisstjórnir myndu væntanlega gefa jákvætt svar við beiðni Bandaríkjastjórnar, og þá munum við hefja samningaviðræður," sagði Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékklands, eftir fund með pólskum starfsbróður sínum, Jaroslaw Kaczynski í Varsjá.

Háttsettur rússneskur hershöfðingi, Nikolai Solovt-sov, varaði Pólverja og Tékka við því að þeir hættu á að verða skotmark rússneskra eldflauga, samþykktu þeir að hýsa bandarískar eldflaugavarnastöðvar.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sagst ekki treysta fullyrðingum Bandaríkjamanna um að eldflaugavarnir þeirra í Evrópu væru aðeins hugsaðar til að mæta hættunni á eldflaugaárás frá Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×